Sigursælasti leikmaður deildarinnar var ofmetinn

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. AFP

Sigursælasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu frá upphafi, Ryan Giggs, var gríðarlega ofmetinn og getur þakkað langlífi sínu í fótboltanum fyrir að vera svo mikils metinn. Þetta segir fyrrverandi leikmaður deildarinnar í harkalegri gagnrýni.

Giggs varð enskur meistari 13 sinnum yfir glæstan 25 ára feril með Manchester United en enginn hefur leikið það eftir. Giggs spilaði 672 deildarleiki fyrir United, skoraði 109 mörk og átti 162 stoðsendingar. Engu að síður er Curtis Woodhouse, sem spilaði í efstu deild með Sheffield United og Birmingham um aldamótin, ekki hrifinn af Wales-verjanum.

„Ryan Giggs, gríðarlega ofmetinn Manchester United-leikmaður,“ skrifaði Woodhouse á Twitter-síðu sína. „Hann átti ótrúlega langan feril en í liði sem drottnaði yfir öllum í áratugi og skoraði endalaust af mörkum. Tölfræði hans yfir mörk og stoðsendingar er afleit, þetta er bara önnur United-goðsaga, góður leikmaður en ekkert meira en það.“

„Hann var frábær íþróttamaður, fyrirgjafirnar hans voru allt í lagi, ekki frábærar. Hann var ekki einu sinni með það góðan vinstri fót! Fínn leikmaður, hann gat hlaupið og var orkumikill. Aldrei lélegur og aldrei stórkostlegur, bara stöðugur fínn leikmaður,“ sagði Woodhouse sem þjálfar utandeildarlið Gainsborough í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert