Félögin taka ákvörðun um næsta skref

Jürgen Klopp á leið af æfingu Liverpool í síðustu viku. …
Jürgen Klopp á leið af æfingu Liverpool í síðustu viku. Nú geta hans menn mögulega tekið næsta skref í þessari viku. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur kynnt hvernig skref númer tvö verði tekið fyrir atvinnuíþróttirnar í landinu og þar með hefur enska úrvalsdeildin í knattspyrnu fengið leiðbeiningar um hvernig hægt sé að æfa næstu vikur.

Liðin hófu æfingar í litlum hópum og með fjarlægðartakmörkum í síðustu viku. Nú fær hver íþróttagrein svigrúm til að ákveða hvort frekari nálægð verði leyfð á æfingum en samkvæmt leiðbeiningunum mega knattspyrnumenn fara í návígi.

Félögin í úrvalsdeildinni munu á miðvikudaginn greiða atkvæði um hvort þau séu tilbúin til að taka þetta skref, í kjölfar fundahalda með fyrirliðum, knattspyrnustjórum og fulltrúum leikmannasamtakanna og knattpsyrnustjórasamtakanna sem verða í dag og á morgun.

Í framhaldi af því munu félögin funda á fimmtudaginn um hvernig staðið yrði að því að hefja keppni á nýjan leik, ásamt því að ræða hvernig annars yrði bundinn endi á keppnistímabilið 2019-20 ef ekki reynist vilji fyrir hendi til að ljúka því með því að spila leikina.

mbl.is