Gylfi betur á sig kominn en fyrir áratug

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, tjáði heimasíðu Everton að hann sé afar vel upplagður eftir það hlé sem gert hefur verið á ensku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirunnar. Leikmenn Everton snéru aftur á æfingasvæði félagsins á dögunum. 

Leikmenn liðsins hafa æft heima við síðan í mars til að halda sér í formi eins og hægt er. „Eiginkonan er með mér allan sólarhringinn og þarf að þola mig þegar við töpum eða þegar liðinu gengur ekki nógu vel. Hún ýtir því við mér á hverjum degi.  En löngunin til að standa sig vel kemur einnig frá mér sjálfum. Ég hef enn metnað til að bæta mig og spila í þessum gæðaflokki. Ég hef reynt að halda mér uppteknum eins mikið og hægt er og gera gott úr hverjum degi. En þrátt fyrir að ég hafi æft vel þá hafa þessar níu vikur verið ansi langar. Það var notalegt að mæta aftur á æfingu, sjá framan í menn og æfa með öðrum. Jafnvel þótt við höldum að sjálfsögðu hæfilegri fjarlægð á milli manna,“ sagði Gylfi meðal annars og segist ekki gefa neitt eftir þótt hann verði 31 árs í september. Þvert á móti sé hann betur á sig kominn en á yngri árum.

„Skrokkurinn er enn í fínu lagi. Erfitt er að segja til um hversu mörgt ár maður á eftir í atvinnumennskunni en líkamlega er ég sennilega betur á mig kominn heldur en þegar ég var tvítugur,“ sagði Gylfi sem missti úr tvo leiki í janúar vegna nárameiðsla sem reyndust ekki vera alvarleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert