Sextíu félög gætu orðið gjaldþrota

Huddersfield féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Huddersfield féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. AFP

Allt að sextíu knattspyrnufélög á Englandi gætu orðið gjaldþrota vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarna mánuði en ekki hefur verið hægt að halda íþróttaviðburði á Bretlandseyjum síðan í mars.

Enn stendur til að klára þær umferðir sem eftir eru í efstu tveimur deildunum en það verður að taka ákvörðun um framhaldið fyrr frekar en síðar að mati eiganda Huddersfield, Phil Hodgkinson.

„Það eru félög sem eru aðeins á lífi vegna þess að þau hafa getað frestað launagreiðslum. Þau munu þurfa að greiða á einhverjum tímapunkti,“ sagði Hodgkinson en Huddersfield spilar í B-deildinni.

Til stendur að ljúka þeim leikjum sem eftir eru fyrir luktum dyrum en Hodgkinson, sem var í viðtali við BBC, segir skipta mestu máli hvað gerist næst. „Þetta er spurning um næsta tímabil, ef við komumst ekki að einhverju samkomulagi um hvernig knattspyrnuhreyfingin getur tekist á við þetta ástand og hvernig félögin geta borgað reikningana sína, þá munu 50 til 60 félög hætta að vera til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert