Þetta er öruggasti vinnustaður landsins

Andros Townsend hefur leikið 125 leiki með Crystal Palace í …
Andros Townsend hefur leikið 125 leiki með Crystal Palace í úrvalsdeildinni á undanförnum fjórum árum. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Andros Townsend sem leikur með Crystal Palace segir að hann og aðrir fótboltamenn í úrvalsdeildinni séu í öruggasta vinnuumhverfinu á Bretlandseyjum, nú þegar útbreiðsla kórónuveirunnar í landinu er á undanhaldi.

„Við bíðum spenntir eftir því að geta hafið eðlilegar æfingar af fullum krafti á ný. Í byrjun síðustu viku hafði maður áhyggjur af því að vera of nálægt öðrum leikmönnum, en eftir því sem dagarnir líða er maður smám samari öruggari með sig, eftir að hver skimun eftir aðra sýnir að þetta er á réttri leið,“ sagði Townsend við Sky Sports og vitnaði þar í seinni skimunina á leikmönnum deildarinnar þar sem tveir af þeim 996 sem voru prófaðir reyndust vera með veiruna.

„Ef tveir úr sama liði hefðu greinst með smit um helgina myndi maður spyrja spurninga um hvernig veiran hefði breiðst út á æfingasvæðinu. En þar sem þetta er í tveimur liðum, og komið hefur verið í veg fyrir frekari útbreiðslu, sést vel að við erum á öruggustu vinnustöðum landsins. Það gefur okkur aukið sjálfstraust til að taka næsta skref,“ sagði Townsend, en vonast er til þess að hægt verði að halda áfram keppni í ensku úrvalsdeildinni um miðjan júní.

mbl.is