Færð bara eitt lífshlaup

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Gamla knattspyrnukempan Teddy Sheringham sendi sóknarmanninum Harry Kane heilræði í viðtali við Sky Sports. Gríðarlega miklar vangaveltur eru um framtíð Kane, sem er fyrirliði Tottenham, en hann er sagður íhuga félagsskipti í sumar eða á næsta ári.

Eitt þeirra félaga sem hefur áhuga á markaskoraranum mikla er Manchester United en Sheringham þekkir það vel, að fara frá Tottenham til United. Hann skipti á milli félaganna árið 1997 og varð bæði Englands- og Evrópumeistari með United.

„Þetta er auðvitað ekki alveg sambærilegt ef þú skoðar hvar Tottenham var þá og hvar félagið er í dag,“ sagði Sheringham en Lundúnaliðið er orðið eitt það sterkasta á Englandi í dag. „Tottenham er að berjast og komst í úrslit Meistaradeildarinnar fyrir ekki svo löngu.“

„Ef ég gæti gefið Kane eitt heilræði, þá er það að þú færð bara einn feril og þú verður að grípa þau tækifæri sem bjóðast,“ bætti hann við um framherjann sem hefur skorað 181 mark í 278 leikjum fyrir Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert