Meistararnir í frábæru standi

Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City.
Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, er hæstánægður með líkamlegt ástand leikmanna sinna en þeir sneru aftur á æfingasvæðið í síðustu viku eftir rúmlega tveggja mánaða hlé.

Ensku félögin munu á morgun kjósa um hvort heimila eigi æfingar án allra takmarkana en sem stendur þurfa þjálfarar að láta leikmenn æfa í litlum hópum með takmörkuðum snertingum. City á eftir tíu leiki í úrvalsdeildinni og segir Guardiola að leikmennirnir séu klárir í slaginn.

„Þeir mættu aftur til æfinga fullir tilhlökkunar og í fullkomnu ástandi,“ sagði Spánverjinn og ítrekaði að félagið myndi ávallt fylgja öllum reglum og tilmælum heilbrigðisyfirvalda.

„Læknar og hjúkrunarfræðingar eru alvöruhetjurnar sem fórna lífi sínu til að bjarga okkar. Við munum fylgja öllum reglum og passa okkur, það skiptir máli fyrst og fremst. Svo hugsum við um að byrja aftur að spila fótbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert