Æfa án takmarkana á Englandi

Harry Kane á æfingu með Tottenham.
Harry Kane á æfingu með Tottenham. AFP

Öll félögin í ensku úrvalsdeildinni samþykktu einróma að byrja að æfa án takmarkana frá og með deginum í dag. Ekkert hefur verið spilað á Englandi síðan um miðjan mars og þá gátu liðin byrjað að æfa fyrir tæpum tveimur vikum en með takmörkunum.

Hingað til hafa félögin getað æft með alls kyns takmörkunum; leikmenn hafa þurft að æfa í litlum hópum og þá hefur snerting verið lágmörkuð. Félögin munu áfram ræða sín á milli um hvenær hægt verður að hefja deildina aftur en það á eftir að spila átta umferðir af tímabilinu. Átta einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna af þeim 1.744 sem hafa verið skimaðir í kringum deildina, leikmenn og starfsmenn.

Þá þykir líklegt að keppni hefjist aftur um miðjan júní og að hægt verði að spila þá 92 leiki sem eftir eru án áhorfenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert