Furðulegt að fagna titli án áhorfenda

Jordan Henderson.
Jordan Henderson. AFP

Að spila á Anfield og fagna Englandsmeistaratitlinum án áhorfenda yrði stórfurðulegt að mati fyrirliða Liverpool, Jordan Henderson, en það eru þó allar líkur á að það gerist.

Liverpool er nálægt því að fagna sínum fyrsta meistaratitli í 30 ár en liðið þarf að vinna tvo af þeim níu leikjum sem það á eftir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Stöðva þurfti mótið í mars vegna veirufaraldursins en til stendur að hefja keppni á ný í júní. Þó yrði að leika alla leiki fyrir luktum dyrum.

„Stuðningsmenn Liverpool skipta gríðarlega miklu máli og við vitum það allir,“ sagði enski landsliðsmaðurinn í viðtali við útvarp BBC. „Þetta er ekki búið, við þurfum að leggja hart að okkur og klára þessa leiki. Ef við vinnum síðan og fáum bikarinn án stuðningsmannanna, við verðum bara að höndla það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert