Liverpool hætt við kaupin?

Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan …
Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur. AFP

Enska knattspyrnufélagið ætlar sér ekki að borga upp klásúlu í samningi þýska framherjans Timo Werner sem leikur með RB Leipzig í þýsku 1. deildinni en það er Mirror sem greinir frá þessu. Liverpool og Leipzig hafa átt í viðræðum um kaup enska félagsins á sóknarmanninum undanfarna daga en Liverpool hefur nú dregið sig út úr þeim viðræðum.

Mirror greinir frá því að Liverpool sé ekki tilbúið að borga meira en 30 milljónir punda fyrir framherjann vegna þeirrar óvissu sem skapast hefur vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins. Klásúlan í samningi Werner hljóðar upp á 52 milljónir en framherjinn verður samningslaus sumarið 2023.

Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er mikill aðdáandi leikmannsins. Klopp gerir sér hins vegar grein fyrir því að kórónuveirufaraldurinn hefur gjörbreytt félagaskiptamarkaðnum og er ekki tilbúinn að borga meira en 30 milljónir punda fyrir Werner.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert