Nota Sánchez til að lækka verðmiðann

Jadon Sancho hefur leikið með Dortmund í Þýskalandi frá árinu …
Jadon Sancho hefur leikið með Dortmund í Þýskalandi frá árinu 2017. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United er tilbúið að gera ýmislegt til þess að tryggja sér þjónustu enska kantmannsins Jadon Sancho í sumar en hann er samningsbundinn þýska 1. deildarfélaginu Borussia Dortmund til sumarsins 2022. Sancho hefur verið sterklega orðaður við United í allan vetur en hann er metinn á rúmlega 100 milljónir evra.

Vegna kórónuveirufaraldursins hafa hins vegar fá félög efni á leikmanninum sem hefur sjálfur gefið það út að hann ætli sér að yfirgefa Þýskaland í sumar en hann er uppalinn hjá Manchester City. Sancho gekk til liðs við Dortmund frá City sumarið 2017 en hann hefur blómstrað í Þýskalandi og verið einn besti leikmaður deildarinnar. 

Sportsmail greinir frá því að United ætli sér að bjóða Alexis Sánchez til Dortmund í skiptum fyrir hinn tvítuga Sancho til þess að freista þess að lækka verðmiðann á Sancho. Sánchez er orðinn 31 árs gamall en hann hefur ekkert getað síðan hann gekk til liðs við United. Sílemaðurinn er metinn á 16 milljónir evra en hann kom til United frá Arsenal í janúar 2018.

mbl.is