Tilbúinn að semja ef banninu er aflétt

Kevin De Bruyne.
Kevin De Bruyne. AFP

Kevin De Bruyne, sókn­ar­maður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester City, er tilbúinn að skrifa undir nýjan samning ef banni félagsins frá Meistaradeild Evrópu verður aflétt.

Eng­lands­meist­ar­arn­ir voru úr­sk­urðaðir í tveggja ára bann frá Meist­ara­deild­inni fyr­ir brot á fjár­hags­regl­um UEFA en fé­lagið hef­ur áfrýjað niður­stöðunni. De Bruyne, einn besti knatt­spyrnumaður heims, er samn­ings­bund­inn City til árs­ins 2023 en hann hef­ur engu að síður gefið í skyn að hann muni róa á önn­ur mið ef hann get­ur ekki spilað í deild þeirra bestu.

Alþjóðaíþróttadómstóllinn mun taka málið fyrir 8. júní en forráðamenn City eru fullvissir um að félagið verði sýknað. De Bruyne, sem kom til Manchester árið 2015, er tilbúinn að missa af einu tímabili í Meistaradeildinni en ekki tveimur.

„Ég er bara að bíða. Félagið segist vera í rétti og ég treysti þeim. Þegar það er komin niðurstaða í þetta mál tek ég mína ákvörðun. Tvö ár án Evrópufótbolta er of langur tími, eitt ár gæti sloppið,“ sagði Belginn í viðtali við HLN í heimalandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert