United tekur stórt lán fyrir sumarið

Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United.
Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur tekið 140 milljóna punda lán sem verður notað til þess að kaupa nýja leikmenn í sumar en það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu í kvöld. Mörg félög eru í miklum fjárhagsvandræðum vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur herjað á heimsbyggðina og ríkir mikil óvissa á félagaskiptamarkaðnum þessa dagana.

Flest stórlið halda að sér höndunum þegar kemur að því að kaupa nýja leikmenn enda enn þá óljóst hvaða áhrif kórónuveiran mun hafa á fjárhag margra liða í heimsfótboltanum í dag. Óvíst er hvenær stuðningsmenn mega mæta aftur á völlinn og fari svo að það dragist á langinn mun það hafa afar slæmar afleiðingar fyrir fjárhag félaganna sem treysta mörg hver á innkomu á leikdögum.

Manchester United ætlar sér hins vegar að styrkja hópinn með að minnsta kosti þremur nýjum leikmönnum samkvæmt MEN. Ed Woodward sér fram á að gera gert góð kaup á félagaskiptamarkaðnum í sumar vegna faraldursins og þá hefur hann trú á því að auglýsingasamningar og sjónvarpstekjur félagsins dugi til þess að borga niður lán sumarsins á stuttum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert