Verðum sparsamir í sumar

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham. AFP

Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham mun ekki opna veskið upp á gátt í sumar þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður vegna þeirra fjárhagserfiðleika sem hafa orðið í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Það er við því að búast að flest félög dragi saman seglin og að minna verði um leikmannakaup fyrir himinháar upphæðir eins og tíðkast hefur undanfarin ár. „Knattspyrnuheimurinn er ekki tilbúinn fyrir brjáluðu upphæðirnar sem við höfum oft séð áður,“ sagði Mourinho í viðtali á Sky Sports.

„Mitt félag verður það sem ég vil að það verði; skynsamlegt. Við þurfum að bera virðingu fyrir ástandinu í heiminum, ekki bara í fótbolta heldur í öllu samfélaginu,“ sagði Portúgalinn en hann saknar þess að spila fótbolta.

„Eftir að þýski boltinn byrjaði aftur hefur þetta verið sérlega erfitt vegna þess að okkur langar að spila. Það er sárt að sjá önnur lönd spila fótbolta en ekki okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert