Íhugar að yfirgefa Chelsea

Jorginho gekk til liðs við Chelsea frá Napoli sumarið 2018.
Jorginho gekk til liðs við Chelsea frá Napoli sumarið 2018. AFP

Jorginho, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, íhugar að yfirgefa félagið í sumar en hann er eftisóttur af stórum liðum. Það er Football Italia sem greinir frá þessu. Jorginho, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við Chelsea árið 2018 þegar ítalski knattspyrnustjórinn Maurizio Sarri tók hann með sér til félagsins frá Napoli.

Jorginho hefur sýnt lipra spretti inn á milli þótt ekki séu allir sannfærðir um gæði leikmannsins á Englandi. Sarri hætti með Chelsea síðasta sumar og tók við Juventus og hefur Jorginho verið orðaður við endurkomu til Ítalíu undnafarna mánuði. „Jorginho er leikmaður sem Sarri hefur alltaf hrifist mikið af,“ sagði umboðsmaður Jorginho, Joao Santos, í samtali við Radio Musica Television á Ítalíu.

„Það er erfitt að spá fyrir um félagaskiptamarkaðinn þessa stundina vegna kórónuveirufaraldursins. Tvö stór félög í Evrópu hafa nú þegar haft samband við mig vegna leikmannsins. Hvort eitt þeirra sé Juventus eða eittvað annað lið mun ég ekki tjá mig um,“ bætti Santos við. Jorginho lék með Naoli frá 2014 til 2018 undir stjórn Sarri, áður en hann samdi við Chelsea, en hann á að baki 22 landsleiki fyrir Ítalíu.

mbl.is