Liðsfélagi Gylfa frá í aðra sex mánuði

Jean-Philippe Gbamin verður lengi frá.
Jean-Philippe Gbamin verður lengi frá. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jean-Phil­ippe Gbam­in á ekki sjö dagana sæla á þessu tímabili en hann hefur orðið fyrir enn einu áfallinu vegna meiðsla.

Gbamin, sem er liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, gekk í raðir Everton frá Mainz í Þýskalandi fyrir 25 milljónir punda síðasta sumar en meiddist næstum strax á læri og þurfti að fara í tvær aðgerðir. Hann hefur aðeins spilað tvo leiki fyrir liðið en var byrjaður að æfa með liðsfélögum sínum í vikunni áður en hann meiddist aftur.

Sky Sports segir frá því að hann hafi meiðst illa á ökkla á æfingu í gær og nú er ljóst að hann spilar ekkert meira með Everton á tímabilinu, en enska úrvalsdeildin hefst aftur 17. júní. Talið er að hann verði frá í allt að sex mánuði.

mbl.is