Tímabilið klárað á sex vikum

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru með 25 …
Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. AFP

Knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni hafa fengið þau skilaboð frá forráðamönnum deildarinnar að fari svo að deildin verði kláruð verði það gert á sex vikum, en það er The Times sem greinir frá þessu. Alls eru níu umferðir eftir af tímabilinu á Englandi eða 92 leikir sem þarf að klára fyrir lok ágúst.

Stefnt er að því að deildin hefjist nú um miðjan júní en síðast var spilað í úrvalsdeildinni 9. mars. Í gær samþykktu liðin einróma að hefja æfingar að nýju af fullum krafti og án takmarkana en The Times greinir frá því að forráðamenn deildarinnar leggi mikið kapp á að deildin verði búin í lok ágúst.

Til stendur að fyrstu leikir eftir hlé verði spilaðir helgina 20.-21. júní og ef það gengur eftir verður spilað sjö sinnum yfir helgi og tvisvar í miðri viku. Fari svo að deildin hefjist ekki fyrr en 27.-28. júní verður hins vegar spilað sex sinnum yfir helgi og þrisvar sinnum í miðri viku. Þá er stefnt að því að úrslitaleikur bikarkeppninnar fari fram í byrjun ágúst, viku eftir að úrvalsdeildin klárast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert