Gæti verið hjá United fram í janúar

Odion Ighalo og Ole Gunnar Solskjær ræða málin.
Odion Ighalo og Ole Gunnar Solskjær ræða málin. AFP

Manchester United virðist, eft­ir allt, ætla að halda sókn­ar­mann­in­um Odi­on Ig­halo inn­an sinna raða út tíma­bilið í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu og í upphafi næstu leiktíðar líka. Samkvæmt heimildum Goal mun hann vera á láni hjá United þangað til í janúar en hann er samningsbundinn kínverska liðinu Shenghai Shenhua.

Sheng­hai Shen­hua vildi fá Ig­halo aft­ur til sín um helgina þar sem kín­verska deild­in mun brátt hefja göngu sína á ný en hann er lyk­ilmaður í liðinu. Upprunalegi lánssamningurinn hans rennur út á morgun. Fé­lagið hafði áhuga á að selja Ig­halo til United en ekki fram­lengja láns­samn­ing­inn og virt­ust því viðræður fé­lag­anna sigld­ar í strand.

Goal greindi svo frá því fyrir tveimur dögum að félögin væru að nálgast samkomulag um að Ighalo yrði áfram hjá United og myndi alla vega klára tímabilið, sem hefst aftur 17. júní, í Manchester. Nú segir miðillinn frá því að hinn nýi samningur muni gilda út janúar. Það fer þó hver að verða síðastur að ganga frá málunum, enda rúmur sólarhringur í að lánssamningurinn fyrsti renni út.

mbl.is