Þegar Bin Laden ætlaði að kála Beckham

David Beckham og Graeme Le Saux fagna marki Beckham gegn …
David Beckham og Graeme Le Saux fagna marki Beckham gegn Kólumbíu á HM 1998. Reuters

Knattspyrnuheimurinn hefur upplifað ýmsar hörmungar í gegnum tíðina eins og flugslys, mannskæð ólæti á áhorfendapöllum, eldsvoða á leikvöngum og fleira. En umfangsmikil hryðjuverk hafa þó ekki verið framkvæmd á stórum knattspyrnuviðburðum í Evrópu þótt það hafi reyndar staðið til þegar Frakkar og Englendingar léku vináttuleik í París árið 2015.

Þótt óraunverulegt kunni að hljóma fyrir þá sem ekki kannast við fréttir af  handtökunum voru umfangsmiklar árásir í bígerð fyrir HM í knattspyrnu í júní 1998 sem fram fór í Frakklandi.

Ef til vill tapaði íþróttaheimurinn sakleysi sínu í einhverjum skilningi þegar hryðjuverkamenn frá Palestínu brutust inn í ólympíuþorpið í München árið 1972 og myrtu í framhaldinu íþróttamenn frá Ísrael. Eftir þau voðaverk var væntanlega allt eftirlit hert í kringum heimsviðburði í íþróttum. Sumir halda því fram að  á okkar dögum sé fólk sjaldan jafn öruggt og á Ólympíuleikum eða heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Hvers vegna? Jú í þeim tilfellum gerist það að leyniþjónustur ólíkra ríkja leggjast saman á árarnar og deila upplýsingum í von um að koma í veg fyrir voðaverk.

Tengingar við Alsír

Yfirvöldum tókst því að vinda ofan af áætlunum hryðjuverkamanna sem að líkindum hefðu skilið David Beckham, Michael Owen og fleiri enska knattspyrnumenn eftir í valnum. Fyrirætlanir hryðjuverkamannanna voru vægast sagt umfangsmiklar því yfir hundrað manns voru handteknir í aðgerðum lögreglu.

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. AFP

Hryðjuverkasamtökin Armed Islamic Group höfðu lagt á ráðin um árásirnar en þau eru tengd við Alsír. Osama bin Laden, leiðtogi Al Qaeda, aðstoðaði við fyrirætlanirnar. Studdi þær með fjárframlögum og bauð hryðjuverkamönnum að nýta æfingabúðir Al Qaeda. Sjálfur hafði hann búið í London í þrjá mánuði árið 1994 og tjáði sig á sínum tíma um aðdáun sína á Arsenal. Fór hann á fjóra leiki hjá Arsenal á Highbury. Hvort tenging bin Ladens við England hafi haft eitthvað með það að gera að enska landsliðið var í sigtinu hjá  hryðjuverkamönnunum skal ósagt látið.

Umfangsmiklar handtökur 1998

Áætlanir um að láta til skarar skríða á HM í Frakklandi 1998 voru lengi í bígerð en leyniþjónustur fylgdust með gangi mála. Í mars og fram í maí árið 1998 var látið til skarar skríða sem varð til þess að það tókst að koma í veg fyrir þessar fyrirætlanir sem voru stórar í sniðum.

Einn af höfuðpaurunum var Farid Melouk sem var franskur ríkisborgari en ættaður frá Alsír. Leyniþjónustur fylgdust með honum en hann hafði áður verið dæmdur í sjö ára fangelsi vegna aðildar að hryðjuverkum í París árið 1995. Þegar hann (ásamt fleirum) var handtekinn í mars fannst ýmislegt grunsamlegt. Mikið skotsilfur í dollurum, fjöldinn allur af gögnum tengdum HM 1998, fjöldi handsprengja, Kalashhnikov-riffla, vökva til sprengjugerðar, og ýmissa vopna. Í framhaldinu voru fleiri handteknir í fleiri löndum.

Þríþættar árásir

Árásirnar sem voru á teikniborðinu voru þríþættar. Fyrsti hlutinn sneri að leik Englands og Túnis í Marseille eða á sama leikvangi og Ísland lék gegn Ungverjalandi á EM 2016. Til stóð að koma frönskum hryðjuverkamönnum að í hópi starfsmanna á leiknum.

Íslenskir áhorfendur á Stade Velodrome í Marseille sumarið 2016.
Íslenskir áhorfendur á Stade Velodrome í Marseille sumarið 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Árásirnar áttu að hefjast með þeim hætti að einn árásarmannanna átti að reyna að komast sem næst David Seaman markverði Englendinga og sprengja sig í loft upp. Þá áttu félagar hans að taka við og átti einn þeirra að sprengja upp varamannaskýlið hjá Englendingum þar sem reiknað var með að upprennandi stjörnur eins og David Beckham og Michael Owen yrðu. Einnig var áformað að sprengja upp einn hluta stúkunnar þar sem enskir stuðningsmenn yrðu staðsettir.

Á sama tíma átti annar hópur hryðjuverkamanna að ráðast inn á hótelið þar sem leikmenn bandaríska landsliðsins yrðu og myrða þá sem tengdust bandaríska hópnum.

Þriðji hluti áætlunarinnar var að ræna ferþegaflugvél og fljúga henni á eitt kjarnorkuverið í Frakklandi. Áætlanir um þá fyrirætlan virðast óljósari.

Enski hópurinn fékk ekkert að vita

Hvað bjó að baki þessum handtökum fyrri hluta árs 1998 kom ekki fram í dagsljósið að ráði fyrr en löngu síðar þegar Adam Robinson sendi frá sér bókina Terror on the Pitch en Robinson þessi var lengi staðsettur í Mið-Austurlöndum.

Glenn Hoddle fékk ekkert að vita.
Glenn Hoddle fékk ekkert að vita. Reuters.

Upp úr krafsinu kom að fyrir HM 1998 vissi Enska knattspyrnusambandið af þessum handtökum og að enska landsliðið hafi verið skotmark. Í það minnsta einhverjir einstaklingar innan sambandsins. Þ.e.a.s eftir handtökurnar. En frá því var ekki greint.

Glenn Hoddle, þáverandi landsliðsþjálfari Englendinga, hefur til að mynda staðfest að hann hafi ekki haft spurnir af þessum fyrirætlunum hryðjuverkamannanna fyrr en mörgum árum síðar.

mbl.is