Eftirmaður Fergusons of þrjóskur

Javier Hernandez fagnar marki með Manchester United.
Javier Hernandez fagnar marki með Manchester United. AFP

Mexíkóski knattspyrnumaðurinn Javier Hernández segir David Moyes, knattspyrnustjórann sinn til sjö mánaða hjá Manchester United, hafa verið of þrjóskan þegar sá skoski tók við United af sir Alex Ferguson árið 2013. 

Moyes entist aðeins sjö mánuði í starfi og fékk reisupassann er liðið var í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Hernández segir Moyes hafa neitað að nota svipaðar aðferðir og sir Alex og það hafi unnið á móti honum. 

„David Moyes tók við. Þetta snýst ekki endilega um að vera góður eða slæmur þjálfari, eða hans hugmyndir. Vandamálið var að hann var ekki nægilega auðmjúkur til að halda áfram að gera það sem sir Alex var að gera. Sir Alex var sá besti frá upphafi og Moyes var of þrjóskur,“ sagði Hernández við Rio Ferdinand á Youtube-síðu enska leikmannsins fyrrverandi. 

„Það var ekki og hefur aldrei verið neitt slæmt á milli mín og Moyes en það voru mistök hjá United að ráða hann. Félagið er enn að gjalda fyrir þessi mistök,“ bætti Mexíkóinn við. 

mbl.is