Við erum söluvara

Tyrone Mings
Tyrone Mings AFP

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu hefur göngu sína á ný 17. júní eftir þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina. Öll liðin eru nú byrjuð að æfa aftur án takmarkana en ekki eru allir leikmenn deildarinnar sáttir.

Troy Deeney, fyrirliði Watford, og N'Golo Kanté, leikmaður Chelsea, eru á meðal þeirra sem hafa neitað að snúa aftur til æfinga vegna ótta við veiruna og þá segir Tyrone Mings, leikmaður Aston Villa, að forráðamenn deildarinnar séu einungis að hugsa um peninga.

„Ástæða þess að við erum að byrja aftur er sennilega 100 prósent vegna peninga, ekki vegna heilinda,“ sagði Mings við Daily Mail. „Ég er alveg til í að byrja spila og hef svo sem ekkert val um það. Við leikmenn vorum þeir síðustu sem var rætt við um að byrja aftur. Það sýnir hvar við erum í goggunarröðinni.

Við erum söluvara og það er ekkert vandamál, ég skil það,“ bætti hann við en allir leikmenn og starfsmenn deildarinnar verða veiruprófaðir nokkrum sinnum í viku á meðan mótið er klárað í sumar.

mbl.is