Á framtíð á Ítalíu

Alexis Sánchez hefur skorað eitt mark fyrir Inter Mílanó í …
Alexis Sánchez hefur skorað eitt mark fyrir Inter Mílanó í fimmtán leikjum. AFP

Alexis Sánchez, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United og lánsmaður hjá Inter Mílanó á Ítalíu, á enn þá framtíð hjá félaginu að sögn Piero Ausilio, yfirmanns íþróttamála hjá ítalska félaginu. Sánchez gekk til liðs við Inter á láni frá United síðasta sumar en hann hefur verið óheppinn með meiðsli og aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni.

Þá hefur Edinson Cavani, framherji PSG í Frakklandi, verið orðaður við Inter að undanförnu en hann verður samningslaus í Frakklandi næsta sumar. „Edinson Cavani er ekki forgangsatriði hjá okkur,“ sagði Ausilio í samtali við ESPN á dögunum. „Við erum með frábæra sóknarþrennu í þeim Romelu Lukaku, Lautaro Martínez og Alexis Sánchez. Sánchez fær nú mikilvægt tækifæri til þess að sýna sig og sanna.

Ef hann stendur undir þeim væntingum sem við gerðum til hans þegar það var ákveðið að fá hann frá Manchester United er ekkert sem er því til fyrirstöðu að hann eigi framtíð hjá félaginu,“ bætti Ausilio við. Sánchez hefur komið við sögu í fimmtán leikjum með Inter á tímabilinu þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann er verðmetinn á 15 milljónir evra.

mbl.is