Þjóðverjinn myndi styrkja United

Kai Havertz er að spila gríðarlega vel um þessar mundir.
Kai Havertz er að spila gríðarlega vel um þessar mundir. AFP

Kai Havertz, framherji Bayer Leverkusen í þýskalandi, myndi styrkja Manchester United að mati Dietmar Hamann, fyrrverandi leikmanns Liverpool og landa framherjans unga. 

Havertz hefur spilað gríðarlega vel eftir að þýska deildin fór af stað á ný eftir kórónuveiruhlé og skorað sjö mörk í síðustu sex leikjum. Hefur hann verið orðaður við félög á Englandi, þá sérstaklega Manchester United. 

Hamann á von á að Havertz færi sig um set í sumar, en Bayern München, Real Madríd og Barcelona eru sömuleiðis áhugasöm um leikmanninn. „Mörg félög í ensku úrvalsdeildinni myndu vilja fá hann og stórlið í öðrum löndum.

Hann myndi vera góður hjá Manchester United og styrkja liðið. Ég er ekki viss um að hann passi í Liverpool samt,“ sagði Hamann við Sky í Þýskalandi. 

„Fólk var að tala um að hann gæti kostað 100 milljónir punda. Ég veit ekki hvort svo sé, en ég er nokkuð viss um að hann fari annað í sumar,“ sagði Hamann. 

mbl.is