Manchester United dregið á asnaeyrunum?

Saúl Niguez.
Saúl Niguez. AFP

Spænski knatt­spyrnumaður­inn Saúl Nigu­ez gerði Manchester United stuðningsmenn heldur betur spennta þegar hann greindi frá því á í fyrradag Twitter að hann ætlaði að tilkynna nýtt félag eftir þrjá daga eða miðvikudaginn 3. júní. Nú virðist sem svo að Spánverjinn hafi einfaldlega haft Manchester-menn að fíflum.

Saúl er talinn einn besti miðjumaður Evrópu en hann hefur verið í lykilhlutverki Atlético Madríd undanfarin ár og átti meðal annars stórleik er liðið sló út Evrópumeistara Liverpool úr Meistaradeildinni í mars. Þá er hann samningsbundinn Atlético til ársins 2026 og því ólíklegt að hann sé á förum frá félaginu. Hann hefur reglulega verið orðaður við United, sem er sagt tilbúið að borga um 120 milljónir evra fyrir hann. Þá er Paul Pogba talinn líklegur til að yfirgefa félagið og margir telja að Saúl gæti reynst frábær arftaki Frakkans.

Það var því kannski ekki óeðlilegt að fyrstu viðbrögð lesenda við tísti kappans væru á þá leið að hann ætlaði sér í rigninguna í Manchester. Margir netverjar hafa hins vegar bent á þann möguleika að Saúl sé einfaldlega að fara tilkynna kaup sín á rafíþróttaliði og að tilkynningin stóra muni í raun ekkert tengjast knattspyrnu, hvað þá Manchester United. Dean Jones, blaðamaður Bleacher Report, er einn þeirra sem bendir á þetta. Hvað sem Spánverjinn hefur að segja, þá kemur það í ljós á morgun.

mbl.is