Stefna á bikarafhendingu á Anfield

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru með 25 …
Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. AFP

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu fer aftur af stað 17. júní að öllu óbreyttu en deildin hefur verið í hléi frá því 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins. Mikið hefur verið rætt og ritað um endurkomu deildarinnar í enskum fjölmiðlum og hefur það meðal annars verið mikið í umræðunni að spila á hlutlausum völlum.

Sportsmail greinir frá því í dag að einungis fjórir leikir af þeim 92 sem eftir eru verði leiknir á hlutlausum völlum. Forráðamenn liðanna í deildinni hafa fundað stíft ásamt lögregluyfirvöldum í Bretlandi en til stóð að leikur Everton og Liverpool í deildinni myndi fara fram á hlutlausum velli enda mikill rígur á milli félaganna sem eru bæði staðsett í Liverpool.

Lögreglan í Liverpool segist hins vegar vera tilbúin að sjá um alla öryggisgæslu á leiknum á Goddison Park, heimavelli Everton, og því ekkert því til fyrirstöðu að leikurinn muni fara fram. Þá greinir Sportsmail einnig frá því að Liverpool muni lyfta Englandsmeistaratitlinum á Anfield, fari svo að liðið vinni deildina.

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. Liðið þarf því einungis tvo sigra úr næstu níu leikjum sínum til þess að fara með sigur af hólmi í deildinni en liðið vann síðast Englandsmeistaratitilinn fyrir þrjátíu árum og hefur aldrei unnið ensku úrvalsdeildina í núverandi mynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert