United-baninn með tilboð í höndunum

Matthew Longstaff fagnar sigurmarki sínu gegn Manchester United
Matthew Longstaff fagnar sigurmarki sínu gegn Manchester United AFP

Ungstirnið Matthew Longstaff vakti heldur betur athygli í knattspyrnunni þegar hann skoraði sigurmark Newcastle gegn Manchester United í frumraun sinni í enska boltanum síðasta haust. Nú er miðjumaðurinn tvítugi með tilboð frá liði í ítölsku efstu deildinni en hann verður samningslaus í sumar.

Longstaff, sem er uppalinn hjá Newcastle, þénar um 140 þúsund krónur á viku og hafnaði á dögunum nýju tilboð frá félaginu sem bauðst til að margfalda launin hans. Launatilboðið var um tvær og hálf milljón króna en nú hefur Udinese, sem spilar í efstu deild Ítalíu, boðið honum samning og tvöfalt hærra kaup, eða fimm milljónir á viku.

Samkvæmt Sky Sports hafa forráðamenn Inter Mílanó og Marseille í Frakklandi einnig rætt við Englendinginn en aðeins Udinese hefur gert honum tilboð. Bróðir hans Sean Longstaff á 18 mánuði eftir af samingi sínum hjá Newcastle og hefur einnig verið orðaður við brottför frá uppeldisfélaginu.

mbl.is