Bíða eftir ákvörðun Belgans

Jan Vertonghen
Jan Vertonghen AFP

Forráðamenn Tottenham bíða nú eftir ákvörðun varnarmannsins Jan Vertonghen, en sá verður samningslaus 30. júní og hefur ekki viljað framlengja við enska félagið. Úrvalsdeildartímabilið verður ekki búið um næstu mánaðarmót vegna kórónuveirufaraldursins.

Félagið hefur beðið Vertonghen, sem er orðinn 33 ára gamall, um að vera áfram út tímabilið en Belginn er sagður vera að íhuga möguleika sína samkvæmt heimildum BBC. Hann hefur verið í herbúðum félagsins síðan 2012 en er sagður vilja langtímasamning í Lundúnum þrátt fyrir að vera orðinn þetta gamall.

Ekk­ert hef­ur verið leikið í ensku úr­vals­deild­inni síðan 9. mars en for­ráðamenn deild­ar­inn­ar stefna á að byrja spila að nýju 17. júní. Alls eru níu um­ferðir eft­ir af tíma­bil­inu á Englandi eða 92 leik­ir en stefnt er á að ensku úr­vals­deild­inni verði lokið í ág­úst, ef allt geng­ur eft­ir.

Vertonghen hefur vakið athygli nokkurra liða í Evrópu en Napoli og Inter Mílanó á Ítalíu eru sögð fylgjast með honum ásamt einhverjum félögum á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert