Fær ekki nýjan samning hjá Adidas

Mesut Özil hefur ekki staðið undir væntingum undanfarin tvö tímabil.
Mesut Özil hefur ekki staðið undir væntingum undanfarin tvö tímabil. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mesut Özil mun ekki fá nýjan samning hjá íþróttavöruframleiðandanum Adidas en það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu. Özil hefur verið með styrktarsamning við Adidas frá árinu 2013 en Özil var þá leikmaður spænska stórliðsins Real Madrid.

Sjö ára samningur Adidas við Özil var metinn á 22 milljónir punda en hann var áður samningsbundinn Nike áður en hann skipti yfir til Adidas. Özil er orðinn 31 árs gamall en Bild greinir frá því að forráðamenn Adidas hafi ekki haft áhuga á því að endursemja við leikmanninn vegna orðspors hans utan vallar.

Özil er launahæsti leikmaður Arsenal en hann þénar 350.000 pund á viku á Englandi. Þrátt fyrir það hefur hann ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar hafa verið til hans, undanfarin tvö tímabil, en Þjóðverjinn lagði landsliðskóna óvænt á hilluna eftir HM 2018 í Rússlandi. Özil lék 92 landsleiki fyrir Þýskaland og varð heimsmeistari með liðinu 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert