Frakkinn yrði kóngur á Anfield

Kylian Mbappé
Kylian Mbappé AFP

Franska knattspyrnustjarnan Kylian Mbappé yrði kóngur undir stjórn Jürgen Klopp hjá Liverpool. Mbappé er einn besti framherji Evrópu og Liverpool, ríkjandi Evrópumeistari, eitt besta lið álfunnar.

Frakkinn ungi er ekki nema 21 árs en hefur engu að síður skorað 90 mörk í 120 leikjum fyrir Frakklandsmeistara PSG síðan hann gekk til liðs við Parísarliðið sumarið 2017. Klopp er mikill aðdáandi leikmannsins og telur gömul kempa að þeir tveir væru góðir saman.

„Liverpool er með þjálfara sem allir leikmenn í heiminum vilja spila fyrir. Mbappé myndi vissulega þurfa að aðlaga sinn leik að stíl Þjóðverjans,“ sagði Willy Sagnol sem spilaði með franska landsliðinu og stórliði Bayern München um árabil.

„En hann væri fljótur að læra, sérstaklega undir stjórn Klopp. Mbappé gæti orðið kóngur með Klopp hjá Liverpool.“ Liðið frá Bítlaborginni er með 25 stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og þarf aðeins tvo sigra í viðbót til að tryggja fyrsta meistaratitil félagsins í 30 ár en deildin hefst aftur 17. júní.

mbl.is