Klásúlan að renna úr gildi

Timo Werner er eftirsóttur.
Timo Werner er eftirsóttur. AFP

Timo Werner, framherji þýska knattspyrnufélagsins RB Leipzig, er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið í sumar ef eitthvað félagið er tilbúið að borga 60 milljónir evra fyrir hann. Klásúlan rennur hins vegar úr gildi 15. júní en Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í vetur.

Þýski framherjinn er einungis 24 ára gamall en hann hefur farið á kostum í þýsku 1. deildinni á tímabilinu og skorað 25 mörk í 29 leikjum í deildinni. Þá skoraði hann fjögur mörk í átta leikjum í Meistaradeild Evrópu en Chelsea hefur einnig mikinn áhuga á framherjanum, sem og Þýskalandsmeistarar Bayern München.

Bild greinir frá því að Werner vilji hins vegar fara til Liverpool og vinna með Jürgen Klopp, stjóra liðsins, en vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins er Klopp ekki sagður tilbúinn að borga 60 milljónir evra fyrir framherjann á þessum tímapunkti. Mörg félög eru í fjárhagsvandræðum og því verður forvitnilegt að sjá hvernig málin þróast á leikmannamarkaðnum í sumar.

mbl.is