Zidane áfram áhugasamur

Paul Pogba hefur verið orðaður við brottför frá United í …
Paul Pogba hefur verið orðaður við brottför frá United í allan vetur. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid á Spáni, hefur ennþá áhuga á því að fá Paul Pogba, miðjumann Manchester United, til félagsins í sumar en það er franski fjölmiðillinn Le10 Sport sem greinir frá þessu. Pogba hefur verið sterklega orðaður við brottför frá United í vetur en hann gekk til liðs við félagið frá Juventus í ágúst 2016.

Pogba var dýrasti leikmaður heims um tíma en United borgaði Juventus tæplega 90 milljónir punda fyrir franska miðjumanninn sem er 27 ára gamall. Pogba hefur verið mikið meiddur á þessari leiktíð og hefur einungis byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur lagt upp tvö mörk.

Juventus og Real Madrid vildu bæði fá Pogba síðasta sumar en voru ekki tilbúin að borga 150 milljónir punda fyrir hann. United er sagt tilbúið að selja Frakkann fyrir 80 milljónir punda í sumar en vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins eru ekki mörg lið sem ráða við það að kaupa Pogba í dag og borga honum uppsett laun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert