Reglubreytingin mismunar minni liðum

Leikmenn Sheffield United.
Leikmenn Sheffield United. AFP

Enska úrvalsdeildin hefur farið að fordæmi flestra annarra deilda í Evrópu og ákveðið að leyfa fimm skiptingar, frekar en þrjár, í leikjum á þessum tímabili þegar það hefst aftur eftir þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirunnar.

Hugmyndin er sú að hlífa leikmönnum sem eru að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn eftir langt, fordæmalaust hlé. Þýska deildin, fyrsta stóra deildin sem hófst aftur, er gott dæmi um það; þar er reglan um fimm skiptingar við lýði en engu að síður hefur tíðni meiðsla nærri þrefaldast.

Sam Dean, blaðamaður Telegraph á Englandi, slær þó upp annarri mynd af reglubreytingunni og segir hana fyrst og fremst vera stærstu og fjársterkustu liðunum til hagsbóta. Bendir hann á að minni félög hafi gjarnan smærri leikmannahópa og úr færri leikmönnum að velja. Félög á borð við Manchester-risana, Chelsea og Liverpool hafa breiða, sterka leikmannahópa og úrval af varamönnum.

Sem dæmi horfir Dean til leiks nýliða Sheffield United gegn Englandsmeisturum Manchester City í janúar síðastliðnum. Nýliðarnir voru með eftirfarandi leikmenn á varamannabekk sínum: Michael Verrips, Phil Jagielka, Kieron Freeman, John Lundstram, Ben Osborn, Callum Robinson og Lys Mousset. Þessir sjö leikmenn kostuðu félagið um 21 milljón punda alls.

Pep Guardiola, stjóri meistaranna, var með Claudio Bravo, Joao Cancelo, Eric Garcia, Ilkay Gundogan, Bernardo Silva, Phil Foden og Sergio Aguero á varmannabekk sínum. Þessir leikmenn kostuðu um 173 milljónir punda. Fjögur félög eru sögð hafa verið gegn þessari reglubreytingu; Aston Villa, Bournemouth og West Ham eru öll í fallbaráttu og Sheffield United hefur aðeins notað 22 leikmenn allt tímabilið.

mbl.is