United lagði fram tilboð

Kalidou Koulibaly er gríðarlega eftirsóttur.
Kalidou Koulibaly er gríðarlega eftirsóttur. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur lagt fram tilboð í Kalidou Koulibaly, varnarmann Napoli, en það er Sky Sports á Ítalíu sem greinir frá þessu. Sky Sports segir frá því að tilboðið hljóði upp á 71 milljón punda en Koulibaly hefur verið sterklega orðaður við úrvalsdeildarfélag Liverpool undanfarnar vikur.

Forráðamenn Napoli hafa hins vegar lítinn áhuga á því að selja senegalska varnarmanninn fyrir minna en 89 milljónir punda. PSG hefur einnig áhuga á leikmanninum sem er til sölu í sumar, þrátt fyrir að eiga þrjú ár eftir af samningi sínum. Koulibaly er 28 ára gamall en hann verður 29 ára gamall þann 20. júní.

Koulibaly gekk til liðs við Napoli frá belgíska 1. deildarliðinu Genk sumarið 2014. Hann er af mörgum talinn á meðal bestu varnarmanna heims en hann er fæddur í Frakklandi en spilar fyrir landslið Senegals. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2015 en alls á hann að baki 42 landsleiki fyrir Afríkulandið.

mbl.is