Besti leikmaður United

Paul Pogba hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni …
Paul Pogba hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Paul Pogba er besti leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United að mati Jesse Lingard, liðsfélaga hans hjá félaginu. Pogba gekk til liðs við United frá Juventus, sumarið 2016, en enska félagið borgaði tæplega 90 milljónir punda fyrir franska miðjumanninn sem var um tíma metupphæð.

Pogba hefur ekki alltaf staðið undir þeim væntingum sem gerðar hafa verið til hans en er 27 ára gamall. Hann hefur einungis byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu vegna meiðsla og hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í sumar. „Ég ólst upp með Pogba hjá United og við höfum því fylgst ansi lengi að,“ sagði Lingard í samtali við Sky Sports. „Hann hefur alla tíð verið gríðarlega teknískur og skarað fram úr á því sviði.

Hann er heimsmeistari með Frökkum og svo vann hann fjölda titla með Juventus á sínum tíma. Hann getur leyst margar stöður og fyrir mér er hann í raun fullkominn leikmaður. Hann er alltaf jákvæður og það smitar út frá sér á vellinum. Hann er líka frábær karakter og það er mjög gaman að deila klefa með honum.

Hann leiðir með fordæmi og það eru fáir sem geta tekið boltann af honum því hann er svo sterkur. Hann varð strax leiðtogi í liðinu og hvað mig varðar þá hefur hann axlað mikla ábyrgð innan félagsins. Fyrir mér er hann besti leikmaður Manchester United,“ bætti Lingard við í samtali við Sky Sports.

mbl.is