Chelsea meistari í öðru sæti og Liverpool sent niður um deild

Norska landsliðskonan María Þórisdóttir er enskur meistari með Chelsea 2020.
Norska landsliðskonan María Þórisdóttir er enskur meistari með Chelsea 2020. AFP

Enska úrvalsdeildin í kvennaflokki í knattspyrnu gaf í dag endanlega út niðurstöðurnar fyrir keppnistímabilið 2019-20 en ákveðið var fyrir nokkru að tímabilinu væri lokið þó liðin hafi spilað á billinu 13-16 leiki hvert af 22.

Manchester City er með 40 stig en Chelsea 39 í tveimur efstu sætunum en þar sem Chelsea hefur leikið einum leik minna er félagið úrskurðaður enskur meistari 2020 á betra stigahlutfalli en Manchester City. Arsenal er í þriðja sæti með 36 stig.

Eitt lið fellur úr deildinni og það kemur í hlut Liverpool, meistaranna frá 2013 og 2014, að fara niður. Liðið var einu stigi á eftir Birmingham sem var í ellefta og næstneðsta sætinu, og þremur á eftir Bristol City. Það verður Aston Villa sem tekur sæti Liverpool í deildinni en Villa er með sex stiga forystu á toppi B-deildarinnar.

mbl.is