Enginn vill sitja á bekknum

Dejan Lovren hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool …
Dejan Lovren hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool á leiktíðinni. AFP

Dejan Lovren, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gæti verið á förum frá félaginu eftir tímabilið en hann verður samningslaus á Anfield sumarið 2021. Hann hefur verið sterklega orðaður við brottfór frá félaginu en hann var nálægt því að ganga til liðs við ítalska A-deildarfélagið AC Milan síðasta sumar.

Lovren segist ekki vera hugsa sér til hreyfings á þessum tímapunkti en ítrekaði að hann myndi skoða sín mál að tímabili loknu. „Það hefur tekið á að vera á hliðarlínunni undanfarin tvö tímabil,“ sagði Lovren í samtali við Sky Sports en Króatinn hefur verið mikið meiddur og þá er hann fjórði miðvörður Liverpool í dag á eftir þeim Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip.

„Það skiptir hins vegar máli hvernig þú tekur á þínum málum þegar það er ekki allt að falla með þér. Ég reyni þess vegna að gefa mig allan í allar æfingar til þess að sýna að ég vilji spila og að ég geti það. Það vill enginn fótboltamaður sitja á bekknum en þegar allt kemur til alls þá er þetta ákvörðun sem er undir þjálfaranum komin.

„Það eru enn þá níu leikir eftir af tímabilinu og mér líður mjög vel í líkamanum. Ég er tilbúinn að sýna hvað í mér býr, ef það verður leitast eftir starfskröftum mínum. Við þurfum tvo sigurleiki í viðbót og við ætlum okkur titilinn. Ég mun svo bara skoða mín mál í rólegheitum eftir tímabilið,“ bætti miðvörðurinn við en hann verður 31 árs gamall í júlí.

mbl.is