Endurkoman eins og alvörustórmót (myndskeið)

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu snýr aftur á morgun þegar Aston Villa tekur á móti Sheffield United og Manchester City fær Arsenal í heimsókn, síðar um daginn. Ekkert hefur verið leikið í ensku úrvalsdeildinni síðan 9. mars síðastliðinn vegna kórónuveirufaraldursins en alls eru níu umferðir eftir af tímabilinu.

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa sett stefnuna á að klára tímabilið á sex vikum og því verður spilað ansi þétt næstu vikurnar. Það eru 92 leikir eftir af tímabilinu og verða þeir allir sýndir beint á Síminn Sport, rétthafa enska boltans á Íslandi, en Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar og þarf tvo sigurleiki til þess að tryggja sér meistaratitilinn.

„Endurkoma enska boltans verður eins og alvöru stórmót,“ sagði Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans, í innslagi sínu fyrir endurkomu deildarinnar. „Stórleikur miðvikudagsins verður viðureign Manchester City og Arsenal þar sem meistarinn tekur á móti lærlingnum. Pep Guardiola gegn Mikel Areta.

Pep mætir peppaður til leiks, klár í að loka mótinu með stæl í öðru sæti deildarinnar og tilbúinn að byrja undirbúa liðið fyrir næstu leiktíð. Kórónuveirufaraldurinn kom á slæmum tíma fyrir Arsenal því liðið er ósigrað í deildinni á árinu 2020. Þetta er bara forrétturinn og veislan fer almennilega á föstudaginn þegar 30. umferðin verður keyrð í gang,“ bætti Tómas Þór við.

Miðvikudagurinn 17. júní:

17:00 Aston Villa - Sheffield United
19:15 Manchester City - Arsenal

Föstudagurinn 19. júní:

17:00 Norwich - Southampton
19:15 Tottenham - Manchester United

Laugardagurinn 20. júní:

11:30 Watford - Leicester
14:00 Brighton - Arsenal - sýndur beint á mbl.is.
16:30 West Ham - Wolves
18:45 Bournemouth - Crystal Palace

Sunnudagurinn 21. júní:

13:00 Newcastle - Sheffield United
16:15 Aston Villa - Chelsea
18:00 Everton - Liverpool

Allir leikir ensku úrvalsdeildarinnar verða sýndir beint á Síminn Sport, heimili enska boltans í vetur, og þá er einn leikur í hverri umferð sýndur á mbl.is.

Pep Guardiola og Mikel Arteta mætast á morgun.
Pep Guardiola og Mikel Arteta mætast á morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert