Meistarinn og lærlingurinn mætast (myndskeið)

Enski boltinn hefst aftur eftir hundrað daga hlé í dag og verða níu umferðir þétt spilaðar næstu sex vikurnar. Tómas Þór Þórðarson og Bjarni Þór Viðarsson fara yfir leikina tvo í kvöld á Síminn Sport í spilaranum hér að ofan.

Aston Villa tekur á móti Sheffield United í fyrsta leiknum eftir hlé en hann verður flautaður á klukkan 17 í dag. „Þetta eru nýliðar sem hafa verið að gera sitthvorn hlutinn,“ sagði Tómas um nýliðaslaginn en á meðan Villa berst á botninum og situr í fallsæti þá er Sheffield United í 7. sæti og í baráttu um þátttöku í Evrópukeppni næsta vetur.

„Aston Villa hefur fengið tíma til að fara yfir varnarleikinn sem hefur verið sérstaklega slakur. Þeir hafa fengið á sig 56 mörk og aðeins haldið hreinu fjórum sinnum,“ sagði Bjarni Þór sem telur gestina líklegri til afreka í kvöld. „Þeir eru auðvitað búnir að gera magnaða hluti,“ sagði Bjarni um Sheffield United. „Þetta á eftir að malla áfram hjá þeim, þeir vita hvað þeir eru að gera.“

Meistararnir mæta Arsenal

Stórleikur kvöldsins er svo viðureign Englandsmeistara Manchester City gegn Arsenal. Pep Guardiola, stjóri City, mætir þar gamla lærling sínum Mikel Arteta sem tók við stjórnartaum Lundúnaliðsins í desember eftir að hafa verið aðstoðamaður Guardiola hjá City.

„Þetta verður frábær leikur á þjóðhátíðardeginum. Arteta að mæta Guardiola, þeir þekkja hvorn annan rosalega vel,“ sagði Bjarni Þór um viðureign stórliðanna. „Arsenal er með það lið sem var kannski extra mikið á móti þessari viðureign. Ósigrað árið 2020 og var búið að vinna þrjá leiki í röð, þessi stöðvun kom á vondum tíma fyrir þá,“ bætti Tómas við en umfjöllunina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

Pep Guardiola og Mikel Arteta á hliðarlínunni hjá Manchester City …
Pep Guardiola og Mikel Arteta á hliðarlínunni hjá Manchester City í desember.. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert