„Draugamarkið“ verður ekki rannsakað

Er boltinn inni?
Er boltinn inni? AFP

Enska úrvalsdeildin mun ekkert aðhafast frekar vegna galla í marklínutækninni í leik Aston Villa og Sheffield United á Villa Park í gær. Sheffield-menn komu þá boltanum í markið eftir að Örjan Nyland í marki Aston Villa greip hann og datt svo bersýnilega með hann inn í markið.

Yf­ir­maður marklínu­tækn­inn­ar í ensku úr­vals­deild­inni baðst í gærkvöldi af­sök­un­ar á því að ekki hafa verið dæmt mark. Michael Oli­ver, dóm­ari leiks­ins, fékk ekki merki um að bolt­inn hefði farið inn fyr­ir lín­una vegna mistaka í tækni­búnaði. Leiknum lauk með marka­lausu jafn­tefli.

Þá segir í tilkynningu frá deildinni í dag að atvikið verði ekki skoðað nánar og að áfram verði notast við marklínutæknina í leikjum deildarinnar. Afsökunarbeiðnin til allra sem að deildinni koma, og þá sérstaklega Sheffield United, var ítrekuð.

„Við höfum aldrei séð þetta gerast áður í þeim níu þúsund leikjum sem tæknin hefur verið notuð,“ sagði m.a. í tilkynningunni. Samkvæmt reglum myndbandsdómgæslunnar, VAR, hefði verið heimilt að skoða atvikið sérstaklega í endursýningum en Paul Tierney, VAR-dómari kvöldsins, ákvað að gera það ekki eftir að Michael Oliver, dómarinn á vellinum, dæmdi ekki mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert