Gefum Klopp nokkra bjóra í viðbót

Andy Robertson var skiljanlega kátur í kvöld.
Andy Robertson var skiljanlega kátur í kvöld. AFP

„Við þurftum að bíða í langan tíma eftir þessu út af veirunni, en stuðningsmenn þurftu að bíða í 30 ár, svo ég get ekki kvartað,“ sagði Andy Robertson, bakvörður Liverpool, í samtali við BBC í kvöld en Liverpool varð Englandsmeistari eftir að Manchester City mistókst að vinna Chelsea á útivelli, en leiknum lauk með 2:1-sigri Chelsea. 

„Við erum enn að reyna að sannfæra stjórann um að gefa okkur tvo frídaga, kannski samþykkir hann það ef við gefum honum nokkra bjóra í viðbót,“ sagði Robertson og skellihló. „Vonandi fáum við þessa tvo daga til að njóta,“ sagði Robertson. 

Er Liverpool með 86 stig, 23 stigum meira en Manchester City þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni, en titillinn er sá fyrsti hjá Liverpool í 30 ár. 

mbl.is