Borgaryfirvöld áhyggjufull í Liverpool

Það var fagnað langt fram á nótt í Liverpool.
Það var fagnað langt fram á nótt í Liverpool. AFP

Liverpool varð Englandsmeistari í knattspyrnu í gær í fyrsta sinn í þrjátíu ár eftir að Chelsea vann 2:1-sigur gegn Manchester City á Stamford Bridge í London. Liverpool var með 23 stiga forskot á City fyrir leik gærdagsins og ljóst að City getur ekki náð Liverpool að stigum þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Liverpool hefur verið óstöðvandi á tímabilinu og aðeins tapað einum leik í deildinni til þessa, gegn Watford á útivelli. Stuðningsmenn Liverpool hafa verið í miklu stuði á tímabilinu enda ljóst nokkuð snemma á leiktíðinni að Liverpool myndi gera alvöruatlögu að titilinum í fyrsta skiptið í langan tíma.

Jürgen Klopp, stjóri liðsins, hefur verið duglegur að biðla til stuðningsmanna liðsins um að halda sig heima en því miður hefur það reynst mörgum erfitt eftir þrjátíu ára bið. Borgaryfirvöld og lögreglan í Liverpool hafa miklar áhyggjur af þessu enda kórónuveirufaraldurinn ennþá að gera Bretum lífið leitt.

Vissulega hefur faraldurinn verið í rénun í landinu en eins og borgaryfirvöld hafa bent á má lítið út af bregða svo allt fari ekki á versta veg. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu í alla nótt og langt fram eftir morgni, líkt og leikmenn liðsins gerðu, á æfingasvæði félagsins Melwood í Liverpool í gær.

mbl.is