Erfitt að sjá Liverpool vinna deildina

Ole Gunnar Solskjær ásamt aðstoðarmanni sínum Michael Carrick.
Ole Gunnar Solskjær ásamt aðstoðarmanni sínum Michael Carrick. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkennir að það hafi reynst honum erfitt að sjá Liverpool vinna sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í þrjátíu ár í gær. Liverpool er Englandmeistari 2020 eftir að Manchester City mistókt að vinna Chelsea á Stamford Bridge í London í gær en 23 stigum munar á Liverpool og City þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Solskjær notaði þó tækifærið og hrósaði Jürgen Klopp og Liverpool en liðið hefur verið óstöðvandi á leiktíðinni. „Ég vil byrja á því að óska Liverpool til hamingju með titilinn,“ sagði Solskjær í samtali við ESPN. „Að vinna ensku úrvalsdeildina er ekki létt og þeir sem vinna deildina eiga það alltaf skilið. 

Það er erfitt að sjá Liverpool vinna deildina, alveg eins og það væri erfitt að sjá önnur lið vinna deildina. Það er ekki bara tilfinning sem ég ber í brjósti heldur allir sem koma að Manchester United. Við viljum komast aftur á sigurbraut að sjálfsögðu og á toppinn á nýjan leik því þar á Manchester United heima,“ bætti Norðmaðurinn við.

mbl.is