Gamlar hetjur Liverpool í skýjunum

Steven Gerrard og Rafael Benítez urðu Evrópumeistarar með Liverpool árið …
Steven Gerrard og Rafael Benítez urðu Evrópumeistarar með Liverpool árið 2005. AFP

Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, var vægast sagt sáttur eftir að félagið tryggði sér sinn fyrsta meistaratitil í þrjátíu ár þegar Chelsea vann 2:1-sigur gegn Manchester City á Stamford Bridge í London í gær. Liverpool er með 23 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu sem þýðir að ekkert lið getur náð þeim að stigum.

Gerrard fór mikinn á Instagram í gær. „Til hamingju Liverpool með Englandsmeistaratitilinn! Þvílíkt áfrek hjá mögnuðum leikmannahópi og ótrúlegum knattspyrnustjóra. Það ber einnig að þakka FSG fyrir þeirra þátt og auðvitað stuðningsmönnunum sem hafa beðið í þrjátíu ár. Nú má partíið byrja!“ bætti Gerrard við.

„Við erum aftur á toppnum,“ sagði Phil Thompson, fyrrverandi fyrirliði og aðstoðarþjálfari liðsins. „Við höfum þurft að bíða ansi lengi, í 30 ár, vissulega unnum við Meistaradeildina á sínum tíma en Liverpool snýst um Englandsmeistaratitilinn. Biðin var þess virði, takk kærlega Jürgen Klopp og leikmenn liðsins,“ bætti Thompson við.

„Til hamingju með bikarinn Liverpool, eftir þrjátíu ára bið rættist draumurinn loksins. Virkilega glaður og ánægður fyrir hönd allra Liverpool-manna. Þú gengur aldrei einn!“ skrifaði Rafa Benítez, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, á samfélagsmiðlinum Twitter en undir hans stjórn varð Liverpool Evrópumeistari árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert