Sextán ára bið Leeds loks á enda?

Jack Harrison skorar þriðja mark Leeds.
Jack Harrison skorar þriðja mark Leeds. Ljósmynd/Leeds United

Leeds United er komið í afar góð mál á toppi ensku B-deildarinnar í fótbolta eftir 3:0-stórsigur á Fulham í mikilvægum leik á Elland Road í Leeds í dag.

Leeds er nú á toppi deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan West Brom og átta stigum fyrir ofan Brentford í þriðja sæti, þegar sjö umferðir eru eftir. Lék Leeds síðast í ensku úrvalsdeildinni fyrir sextán árum. 

Patrick Bamford kom Leeds yfir snemma leiks og þeir Gianni Alioski og Jack Harrison bættu við mörkum í seinni hálfleik. Neeskens Kebano hjá Fulham fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma. 

Wayne Rooney, markahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester United og enska landsliðsins, skoraði sigurmark Derby í 2:1-sigri á Reading á heimavelli. Kom markið úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Tom Lawrence fékk beint rautt spjald hjá Derby í uppbótartíma, eins og Matthew Miazga hjá Reading. 

Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Millwall sem gerði markalaust jafntefli við Barnsley á útivelli. Millwall er í ellefta sæti með 55 stig. 

Staða efstu liða: 
Leeds 74
WBA 71
Brentford 66
Fulham 64
Nottingham Forest 61
Cardiff 60

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert