Úlfarnir í 5. sætið – Villa í vandræðum

Leander Dendoncker skorar hér sigurmarkið á Villa Park í dag.
Leander Dendoncker skorar hér sigurmarkið á Villa Park í dag. AFP

Wolves skaut sér upp í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 1:0-sigri á Aston Villa á útivelli í eina leik dagsins í deildinni rétt í þessu.

Úlfarnir eru í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en Villa berst fyrir lífi sínu á botninum. Eftir markalausan fyrri hálfleik braut Leander Dendoncker ísinn með sigurmarki leiksins á 62. mínútu fyrir gestina. Hann lagði boltann fyrir sig rétt utan teigs og skoraði svo með föstu skoti, meðfram jörðinni í hægra hornið.

Wolves er nú með 52 stig í 5. sætinu, þremur stigum á undan Manchester United sem á leik til góða. Aston Villa er í 19. og næstneðsta sæti með 27 stig, einu stigi frá öruggu sæti en nú búið að spila einum leik meira en önnur lið í kring.

mbl.is