Agüero gæti verið á förum frá City

Sergio Agüero.
Sergio Agüero. AFP

Knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero, markahæsti leikmaður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi, gæti verið á förum eftir tímabilið en ítalski miðillinn Calciomercato segir frá því að Argentínumaðurinn gæti farið til Inter Mílanó og Milan Skriniar í hina áttina.

Agüero er orðinn 32 ára og hefur skorað 180 deildarmörk í 263 leikjum fyrir City frá árinu 2011 en hann verður frá næstu vikurnar vegna hnémeiðsla. Skriniar er 25 ára gamall varnarmaður sem hefur verið á mála hjá Inter síðan 2017 en City er sagt mjög áhugasamt um leikmanninn.

Forráðamenn félaganna eru sagðir hafa rætt möguleg skipti á leikmönnunum en Pep Guardiola er sagður tilbúinn að gefa Gabriel Jesus tækifærið sem aðalframherji liðsins á næstu leiktíð.

mbl.is