Fowler setur fjölskylduna í forgang

Robbie Fowler lék um árabil með Liverpool.
Robbie Fowler lék um árabil með Liverpool. AFP

Robbie Fowler, sem lengi lék með enska knattspyrnuliðinu Liverpool, hefur ákveðið að hætta störfum sem þjálfari ástralska liðsins Brisbane Roar.

Þegar keppni var stöðvuð í mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar fór Fowler heim til Englands þar sem fjölskylda hans býr og varaformaður Brisbane Roar, Chris Fong, skýrði frá því í dag að Fowler vildi vera um kyrrt hjá fjölskyldunni og myndi því ekki snúa aftur.

„Við erum vonsviknir yfir því að þessi heimsfaraldur hafi haft þessi áhrif á framtíðarplön okkar en skiljum fullkomlega að fjölskyldan sé sett í forgang á þessum erfiðu tímum. Robbie hefur ekki bara stuðlað að stöðugleika í félaginu heldur hefur hann komið til okkar með mikla innspýtingu af þekkingu í félagið. Heimurinn hefur breyst en við áttum ekki von á þessu. Þetta er synd því við vorum á afar fallegri leið,“ sagði Fong.

Fowler, sem er 45 ára gamall, skoraði 128 mörk í 266 leikjum fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og lék einnig með Leeds, Manchester City, Cardiff og Blackburn áður en hann lauk ferlinum í Ástralíu og Taílandi. Hann tók við liði Brisbane í apríl 2019 og samdi til tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert