Leikmaður United lýkur tímabilinu með nýliðunum

Dean Henderson hefur leikið vel á leiktíðinni.
Dean Henderson hefur leikið vel á leiktíðinni. AFP

Enski markvörðurinn Dean Henderson verður í herbúðum Sheffield United út leiktíðina en hann er á lánssamningi hjá félaginu frá Manchester United. Henderson, sem er 23 ára, lék sömuleiðis með liðinu í B-deildinni á síðustu leiktíð. 

Átti lánssamningur Hendersons að renna út um mánaðamótin en félögin hafa komist að samkomulagi um að hann ljúki tímabilinu í Sheffield, en viðræður þess efnis hafa lengi staðið yfir. 

Henderson hefur spilað vel á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni og ellefu sinnum haldið hreinu hjá nýliðunum. Er liðið í áttunda sæti með 44 stig eftir 31 leik.

Henderson hefur verið í herbúðum Manchester United frá 2011 og leikið með Stockport, Grimsby og Shrewsbury að láni síðustu ár. Spá því margir að hann sé framtíðarmarkvörður enska landsliðsins og United.

mbl.is