Leikmaður City á leið til Bayern

Leroy Sané er á leiðinni til Bayern.
Leroy Sané er á leiðinni til Bayern. AFP

Þýski knatt­spyrnumaður­inn Leroy Sané er á leiðinni til Bayern München frá Manchester City. Enska félagið samþykkti 54,8 milljón punda boð Bayern og mun Sané gera fimm ára samning við þýska félagið. 

Sané gekk í raðir Manchester City frá Schalke árið 2016 og hefur hann skorað 25 mörk í 90 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og 39 mörk í 135 leikjum í öllum keppnum. 

Þá hefur sóknarmaðurinn leikið 21 leik með þýska landsliðinu frá 2015 og skoraði í þeim fimm mörk. Sané hefur verið orðaður við Bayern í nokkurn tíma og koma félagsskiptin ekki á óvart, en hann hafnaði nýju samningstilboði frá City á dögunum. 

mbl.is