Neita að borga uppsett verð

Jadon Sancho hefur verið orðaður við Manchester United í allan …
Jadon Sancho hefur verið orðaður við Manchester United í allan vetur. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United er ekki tilbúið að borga meira en 50 milljónir punda fyrir sóknarmanninn Jadon Sancho en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Sancho hefur verið sterklega orðaður við Manchester United í allan vetur en hann leikur með Borussia Dortmund í Þýskalandi.

Dortmund er tilbúið að selja leikmanninn í sumar fyrir uppsett verð en hann kostar í kringum 100 milljónir punda. United er ekki tilbúið að borga þá upphæð, meðal annars vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar, og því eru félagskipti hans til enska stórliðsins nú í hættu samkvæmt Sky Sports.

Sancho er einungis tvítugur að árum en hann er uppalinn hjá Manchester City. Leikmaðurinn vill sjálfur komast aftur til Englands eftir þrjú ár í Þýskalandi þar sem hann hefur slegið í gegn. Hann hefur byrjað 25 leiki í þýsku 1. deildinni á tímbilinu þar sem hann hefur skorað 17 mörk og lagt upp önnur 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert